Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 121/2011

Hinn 8. febrúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 121/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 18. ágúst 2011 á beiðni kæranda um undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Undanþágan varðar skilyrði um lögheimili. Krefst kærandi þess að sér verði veitt umrædd undanþága.

 

I. Málavextir og málsmeðferð.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með umsókn, dags. 18. júlí 2011. Í bréfi þjónustumiðstöðvar B til kæranda, dags. 19. júlí 2011, kemur fram að skv. b-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur þurfi umsækjandi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berist. Það sé ljóst að umsækjandi uppfylli ekki ákvæði b-liðar 4. gr.

Kærandi kærði ákvarðanir þjónustumiðstöðvarinnar til velferðarráðs Reykjavíkur og í bréfi velferðarráðs, dags. 19. ágúst 2011, til kæranda kemur fram að ráðið hafi samþykkt synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Í greinargerð B, dags. 18. júlí 2011, kemur meðal annars fram að kærandi hafi komið frá C fyrir 15 árum og hafi unnið á spítölum og fiskverkastöðum til ársins 2008. Það ár hafi hún lent í alvarlegu bílslysi og hafi orðið 75% öryrki í kjölfar þess. Hún fái örorkubætur í samræmi við búsetu sína á landinu auk þess sem hún fái greitt frá Eflingu. Kærandi hafi búið á höfuðborgarsvæðinu og hafi flust til Reykjavíkur í apríl 2010. Mælt er með því að hún fái undanþágu frá þriggja ára búsetuskilyrði.

Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. júní 2012, var óskað eftir viðbótarupplýsingum um meðferð máls kæranda hjá Reykjavíkurborg, meðal annars eftir nánari gögnum og upplýsingum um hvernig velferðarráð mat félagslega erfiðleika kæranda. Svar barst með bréfi, dags. 26. janúar 2012, en bréfið var sent kæranda til kynningar þann 30. janúar 2012.

 

II. Málsástæður kæranda.

Í kærunni kemur fram að kærandi sé öryrki og hafi hún u.þ.b. 120.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Leigugreiðslur séu 90.000 kr. á mánuði. Hún teljist vera 43% Íslendingur þrátt fyrir 16 ára dvöl og ríkisborgararétt á Íslandi. Kærandi kveðst síðan snemma árs 2007 hafa búið með D á heimili móður hans að E. Vorið 2010 hafi þau flutt í F og hafi kærandi þá skráð lögheimili sitt þar.

Reykjavíkurborg synji kæranda um sérstakar húsaleigubætur vegna þrjggja ára búsetureglunnar. Hún sæki um undanþágu frá þeirri reglu. Félagsráðgjafi í G hafi þó hvatt hana mjög til þess að leigja sér húsnæði og sækja svo um sérstakar húsaleigubætur. Í dag þyki 90.000 kr. húsaleiga ekki há en sé mikið að greiða fyrir kæranda.

 

III. Málsástæður kærða.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með áorðnum breytingum, upphaflega samþykktar í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 en síðustu breytingar hafi verið samþykktar í velferðarráði 3. febrúar 2011 og í borgarráði 10. febrúar 2011.

Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar kemur fram að í 4. gr. reglnanna séu sett fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið 4. gr. reglnanna sé fjallað um að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar lögð er inn umsókn og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé skv. a-lið að veita undanþágu frá þriggja ára reglunni ef umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Einnig geti ráðgjafi veitt undanþágu, sbr. b-lið sömu greinar, byggða á faglegu mati ef um mikla félagslega erfiðleika er að ræða, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Framangreind undanþáguákvæði séu heimildarákvæði og því sé ekki skylt að veita slíkar undanþágur.

Velferðarráð kveður kæranda hafa flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur þann 12. apríl 2010 og uppfylli hún því ekki skilyrði b-liðar 4. gr. um að hafa átt lögheimili í Reykjavík samfleytt a.m.k. síðustu þrjú árin áður en umsókn hafi borist. Kærandi hafi flutt til Íslands frá C fyrir 14 árum og hafi búið í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá hafi kærandi flutt til Reykjavíkur árið 1998 en flutt til Kópavogs árið 2000. Síðan hafi hún flutt aftur til Reykjavíkur árið 2005, flutt þaðan til Hafnarfjarðar árið 2007, síðan til Kópavogs árið 2008 og loks til Reykjavíkur þann 12. apríl 2010. Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna þar sem hún hafi ekki búið stóran hluta ævi sinnar í Reykjavík og flutt tímabundið úr sveitarfélaginu á grundvelli þeirra ástæðna er taldar eru upp í ákvæðinu.

Þá hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna þar sem aðstæður kæranda féllu ekki undir mikla félagslega erfiðleika eins og kveðið sé á um í lið 5 c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 27. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sem tóku gildi 1. mars 2004. Samkvæmt VII. kafla reglnanna fer málsmeðferð eftir ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og ákvæðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Í máli þessu hefur kærandi sótt um búsetu í félagslegu leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur, en ágreiningur er um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda undanþágu frá skilyrðum í b-lið 4. gr. framangreindra reglna, sbr. 5. gr. um undanþágur frá skilyrðum.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild. Umsækjandi þarf að uppfylla öll þar tilgreind skilyrði a–e-liða til þess að umsókn öðlist gildi. Í b-lið greinarinnar kemur fram að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst.

Í 5. gr. reglnanna er fjallað um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili. Í a-lið 5. gr. reglnanna kemur þannig fram að heimilt sé að veita undanþágu hafi umsækjandi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Í b-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið þegar umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum.

Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar er tekið fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 4. gr. um að hafa átt lögheimili í Reykjavík samfleytt a.m.k. síðustu þrjú ár áður en umsókn barst. Með vísan til búsetusögu kæranda á Íslandi hafi ekki verið unnt að veita henni undanþágu á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna. Loks taldi velferðarráð ekki unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna þar sem aðstæður hennar féllu ekki undir mikla félagslega erfiðleika.

Í bréfi velferðarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2012 kemur fram að settar hafa verið verklagsreglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur sem samþykktar voru í félagsmálaráði þann 12. maí 2004 og samþykktar í velferðarráði 27. apríl 2005. Þar komi fram skýringar um mat á félagslegum vanda, og samkvæmt þeim teljist til mikils félagslegs vanda það þegar umsækjandi býr við félagslega einangrun, þegar félagsleg færni hans er takmörkuð eða hann er framtakslaus, hafi ekkert stuðningsnet eða búi við sértæka erfiðleika. Einnig geti átt þar undir háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi. Kærandi hafi ekki fallið undir framangreint þar sem hún hafi, þrátt fyrir að búa við 75% örorku vegna bílslyss, fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins til samræmis við búsetu sína hér á á landi, ásamt greiðslum frá Eflingu. Að auki hafi fyrrverandi sambýlismaður hennar aðstoðað hana frá því þau slitu samvistum stuttu áður en kærandi lagði inn umsókn félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar félagslegar húsaleigubætur. Þá eigi hún uppkomna dóttur hér á landi sem kærandi eigi í ágætis tengslum við.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að af gögnum málsins megi ráða að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 5. gr. framangreindra reglna. Þá verður, samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, ráðið að fallast á það mat kærða að kærandi uppfylli ekki hið matskennda viðmið b-liðar 5. gr. reglnanna eins og hér stendur á.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 Úrskurðarorð:

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 18. ágúst 2011 í máli A er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                    Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum